Guðrún Veiga

Mar 3, 2016

Dálítið af málningu



Það hefur alla tíð blundað í mér brjálæðislegur áhugi á förðun. Alveg síðan ég keypti mína fyrstu augnskugga um borð í flugvél Iceland Air á leiðinni til Alicante. Með elsku ömmu minni og afa. Fjórtán ára gömul. Dæmalaust tilbúin til þess að takast á við heiminn sem máluð kona.

Alltof mikið máluð kona nota bene. Ég gekk um með dökkbláan augnskugga nánast upp að hársverði. Talsvert lengur en ég kæri mig um að muna. Og smurði hvítum augnblýanti á varirnar á mér. Handviss um að ég væri öfunduð af stórbrotnu útliti mínu. Og förðunarhæfileikum. Af bæði konum og körlum.

Svo spurði frændi minn mig af hverju ég liti alltaf út eins og fáviti. 

Jæja. Batnandi fólki er best að lifa. Hvítar varirnar fengu að fjúka. Sem og skuggalegt magnið af bláu augnmálningunni. Það skeði afar hægt sko. En örugglega þó. Alltof löngu eftir að frændi minn fetti fingur út í útlit mitt. Ég sagði honum að fokka sér. Og í sömu andrá smurði ég auka umferð af hvítum augnblýanti yfir varirnar á mér. Ögrandi og óttalaus. Það er ég. 

Hóst.


Í dag langar mig að sýna ykkur pallettu og varalit. Sem ég hef fengið margar spurningar um. Ekki hér nei. Heldur á Snapchat. Þar sem ég er iðulega útlítandi eins og dragdrottning. Í slopp. 

Varningurinn fæst á Fotia.is


Jú, ef vel er að gáð þá sést glitta í sloppinn minn þarna. Auðvitað. 



Ekki í slopp. Og allt önnur förðun. Þó með sömu pallettu að vopni. Þarna hafði ég fengið veður af því að Kári Stefáns væri með fyrirlestur á Grand Hótel. Sem er í næsta húsi. Og svo heppilega vildi til að ég var akkúrat á leið á göngu um hverfið. Alveg óvænt og svona fínt máluð. 

Þessi augnhár sem ég skarta á myndinni er ég reglulega spurð um á Snapp-inu. Sama hvort ég skarta þeim löðrandi af þokka á laugardagskvöldi eða að vakna með þau löðrandi af áfengisstybbu seint á sunnudagsmorgni. 

Augnhárin heita Minx 2.0 og þú finnur þau á Haustfjord.is.




Þessi varalitur. Ég einfaldlega elska hann. Mattur og helst fáránlega vel á. Sem er kostur fyrir síétandi og síbingókúlusjúgandi konu. 


Liturinn er frá Ofra og heitir Havana Nights. Þú finnur hann hérna.

Ps. hann næst úr fötum. Já, ég er búin að láta að það reyna. Já, ég er ógeð. Og sóði.




Pallettan gullfallega. Litirnir hafa hrikalega flotta áferð og haldast vel á. Nú og svo er þetta alveg hræbilligt í þokkabót. Hah, allir græða. Eða já. Þið vitið. 

Pallettuna finnur þú hérna


Það er bara fokk erfitt að taka svona förðunarmyndir. Ég tek hér með ofan fyrir förðunarbloggurum. 



Um jólin fékk ég þá flugu í hausinn að fara í förðunarnám. Sem kostar einhverja þúsundkalla. Fjármálaráðherra (sambýlismaðurinn) sagði nei. 

Við erum að safna fyrir brúðkaupi. 

Í gær skráði ég mig í förðunarnám. Það byrjar 22.ágúst. Við giftum okkur 13.ágúst. Ég ætla að segja honum tíðindin þann 14. 

Hann lætur mig ekki róa daginn eftir giftingu. Nema auðvitað að ég drepist áfengisdauða í veislunni.

Sem eru að vísu talsverðar líkur á.

Jæja. Svo fer sem fer.

Förðun ætla ég að læra.

Þið finnið mig á Snapchat og Instagram - gveiga85.

Heyrumst.


Feb 29, 2016

Inni í svefnherbergi


Nei. Ég er ekki að fara að gefa ykkur einhver óbrigðul ráð til þess að nýtast við í svefnherberginu. Eða þið vitið, í rúminu. Í kynlífinu. Svo ég tali nú ekki undir rós. Það væri helst til ólíkt mér. 

Ókei. Hvað um það. Um daginn fékk ég þá flugu í hausinn að ég yrði að eignast snyrtiborð. Og mínar flugur eru ekkert drepnar með flugnaspaða. Eða inniskó. Eða fjórtán lítrum af hárlakki. Ó, nei. Mínar flugur staldra við. Koma til að vera. Mínum flugum er hrint í framkvæmd. Ef svo má að orði komast. Allt í lagi, þetta er svolítið undarlega að orði komist. Whatever.

Við getum málað mynd. Til þess að einfalda málið. Ég verð eins og ofvaxin fiskifluga. Og sambýlismaðurinn eins og vel vænn skítahaugur. Sem fiskiflugan sveimar svo í kringum eins og snaróður smáhundur. 

Löng saga stutt. Mér dettur eitthvað í hug. Röfla og ropa. Geri sambýlismanninn gráhærðan. Alveg niður að pung. Og það vill ekki nokkur maður undir fertugu finna grá hár í kringum fermingarbróðurinn. Þannig að hann lætur undan. Oftast. 

Ég fékk borðið. Flugan mín var samþykkt. Með semingi. Sem kostaði rúnt í Ikea. Og Bauhaus. Og allar Húsasmiðju- og Bykoverslanir þar á milli. Á meðan ljómaði sambýlismaðurinn auðvitað eins og sólin. Raulaði vel valda lagstúfa. Valhoppaði. Og vart réð sér fyrir fögnuði. Og sælu.


Það snyrtir sig ekki nokkur kona án þess að slafra í sig fáeinum Bingókúlum á meðan. Bráðnauðsynlegt nasl fyrir hvers kyns snyrtingar. 


Við nenntum ekki að bora í veggina. Og þegar ég segi við þá meina ég sambýlismaðurinn. Ekki þorði ég að styggja hann frekar. Svona þar sem hann var hársbreidd frá því að saga framan af haglabyssunni sinni og koma mér fyrir kattarnef. 

Já. Þetta er óumbúið hjónarúm sem þið sjáið í báðum speglunum. Nei. Ég bý aldrei um. 

Þetta veggljós er að vísu ljómandi fínt. Þó að ég hafi mögulega maldað aðeins í móinn. Og fundist það sérlega ólekker. En birtan er stórkostleg. Og eins og miðaldra gardínubyttu sæmir þá er það fest upp með kennaratyggjói. 

Ég keypti ljósið í Húsasmiðjunni í Skútuvogi. Það kostaði átta fjólubláa. Minnir mig. Og er til í öllum stærðum og gerðum. 




Ofan í skúffu. Af því ég veit að þið eruð ógeðslega forvitin.



Já. Ég opnaði pallettuna fyrir myndatöku. Af því hún er það fallegasta sem ég hef séð. Fyrir utan afkvæmið. Og Kára Stefáns.



Gul herðatré, að sjálfsögðu. Ásamt snarsmekklegu Tribo-hálsmenunum mínum. 



Hin skúffan er skrifstofuskúffa. Ef svo má segja. Af því borðið hefur tvíþætt hlutverk. Ég hyggst nefnilega líka vera rosalega dugleg að blogga á því. Þá sjaldan. 

Nei, nú tek ég mig á í blogginu. Sagði hún í hundraðasta skiptið.

Blablabla.

Þá eruð þið búin að koma inn í svefnherbergi til mín.

Verði ykkur að góðu.

Þið finnið mig bæði á Snapchat og Instagram - gveiga85.

Heyrumst.

Feb 10, 2016

Frelsið sem fylgir því að lifa í sátt

Ég hef rætt við ykkur áður um The Body Project námskeiðið á vegum Dove. Meira að segja oftar en einu sinni. Ókei, mögulega oftar en tvisvar. Enda linni ég sjaldan látunum þegar mér verður eitthvað hugleikið.

Síðasta vor hlotnaðist mér sá heiður að sýna ykkur fyrsta myndbandið á vegum #Sönnfegurð herferðarinnar og í kjölfarið skrifaði ég færslu sem varð eiginlega minn vendipunktur. Ef svo má segja. Eitthvað sem ég þurfti til þess að sjá sjálfa mig í allt öðru ljósi.

 Færsluna má lesa hér.
.
Í dag ætla ég að sýna ykkur annað myndband sem tekið var upp á dögunum. Þetta myndband segir allt sem segja þarf. The Body Project er virkilega frábært og þarft framtak sem skilar sínu.

Kíkjum á myndbandið áður en ég byrja að tala. Við vitum nú öll hversu lengi ég get blaðrað.


Já, bloggfærslan sem ég skrifaði síðasta vor losaði mig úr einhverskonar prísund. Prísund sem ég hafði haldið sjálfri mér í í alltof mörg ár. Ég sá kannski ekki ein um að loka mig þar inni. Það voru ýmis utanaðkomandi öfl sem sannfærðu mig um að líkami minn væri ekki boðlegur. Hvers kyns glansmyndir, kvikmyndir, tímarit, fjölmiðlar, fólk sem ég þekkti og þekkti ekki.

Ég var ekki há í loftinu þegar búið var að sannfæra mig um að ég væri ekki af réttri stærð. Að ég félli ekki undir ríkjandi viðmið samfélagsins. Að ég væri ekki eins og önnur börn á svipuðu reki.

Ég var sex ára þegar heimilislæknirinn sagði við mig í skólaskoðun að ég væri of feit. Ég var ekki að heyra það í fyrsta skipti. Ég var stundum kölluð feitt svín á skólalóðinni þegar ég skartaði ljósbleiku úlpunni minni. Sem mamma hafði pantað frá Reykjavík. Og ég var svo sæl með.
.
Það var þó skammvinn sæla. Ég hætti að vilja fara í hana. Af því ég var jú eins og svín í henni.


(Þarna er ég á milli fimm og sex ára. Augljóslega svo vel í holdum að inngripa var þörf).

Mér var strítt á holdafari mínu nánast fram á fullorðinsár. En ég lærði fljótt að bíta til baka. Fast. Kannski of fast. Ég veit það ekki. Mér var kennt að svara fyrir mig. Láta ekki bugast. Og ég gerði það ekki. Ég var örugglega ekkert minna gerandi en fórnarlamb á þessum árum. Blanda af báðu.

Ég var ekki barnanna best. Því mun ég aldrei reyna að halda fram. 

Hvað sem því líður hef ég eytt bróðurpart ævi minnar í það að fyrirlíta líkama minn. Ég lá öll kvöld sem unglingur og ímyndaði mér hvernig lífið yrði þegar ég yrði loksins mjó.

Ég ímyndaði mér öll fötin sem ég myndi passa í. Magabolirnir, bíkinin, þröngu gallabuxurnar, pilsin og kjólarnir. Alla strákana sem kæmu til með að ganga á eftir mér með grasið í skónum. Hvernig ég myndi himininn höndum taka. Hvernig öll lífsins lukka og hamingja yrði mín.

Ég skyldi hata þennan líkama og beita öllum leiðum til þess að breyta honum þar til ég yrði á pari við Claudia Schiffer (já, það er orðið ferlega langt síðan ég var unglingur). Hatrið myndi keyra mig áfram í átt að árangri.

Ég fór í menntaskóla. Sjálfsmyndin mölbrotin. Megrun á megrun ofan. Feluleikur með mat af því ég skammaðist mín fyrir að borða hann. Feluleikur í flennistórum flíspeysum af því ég skammaðist mín fyrir líkama minn. Feluleikur á bak við tryllingsleg trúðslæti af því enginn skyldi koma auga á vanlíðan mína. Ég kunni alla fitubollubrandarana í bókinni og passaði mig á að vera fyrst að segja þá.

Já, ég afvopnaði aðra með því að hlæja hæst að sjálfri mér. Eins skítt og það gat nú verið.

Ég dansaði og daðraði við aðferðir sem geta verið lífshættulegar. Sem seinna meir yfirtóku líf mitt. Eins og ég hef svo margsinnis sagt frá og þarf ekkert að fara út í aftur.

Ég vildi óska þess að eitthvað á pari við The Body Project námskeiðið hefði verið í boði á mínum unglingsárum. Persónulega finnst mér þörf á að fara með slík námskeið inn í grunnskóla líka. En það er önnur saga.

Ég segi eins og ein stúlkan í myndbandinu: það er mjög frelsandi tilfinning að sætta sig við sjálfa sig. Ég vildi bara óska þess að ég hefði gert það miklu fyrr. Svo miklu miklu fyrr.

Það er búið að taka mig alltof mörg ár að læra að lifa í sátt við sjálfa mig. Og losa mig við skömmina sem fylgdi rauða spjaldinu sem ég fékk þegar ég var 6 ára.

Í dag ber ég loksins nægilega virðingu fyrir sjálfri mér til þess að vera ekki að eltast við einhverjar glansmyndir. Þolinmæði mín fyrir slíkum eltingaleikjum er á þrotum.

Í dag eru orð eins og megrun og átak ekki til í minni orðabók. Ég er búin með æviskammtinn þar.

Í dag skilgreini ég mig hvorki feita eða mjóa. Ég skilgreina líkama minn bara ekkert yfir höfuð. Þetta er mitt ytra byrði. Toppurinn á ísjakanum, ef svo má segja. Ég er svo miklu meira en það sem bara augað sér.

Í dag læt ég ekki fatastærðir angra mig eða segja mér hvers virði ég er. Ég fer upp um stærð. Ég fer niður um stærð. Whatever. Nýjustu kjörorð mín eru einmitt: sníddu þér stakk eftir vexti – ekki vöxt eftir stakki. Hljómar sennilega einkennilega í eyrum margra. En samt. Ég fyrir svo löngu orðin lúin á fatastærðum. Og láta einhverja miðasnepla, sem saumaðir eru inn í einhverja fatalafra, stýra því hvernig mér líður með sjálfa mig.

(Ást mína á vintage-klæðnaði má að mörgu leyti rekja til þess að það er oft á tíðum ómögulegt að sjá númer hvað flíkurnar eru. Ég gramsa bara. Finn eitthvað sem passar. Geng sátt og sæl út. Alfarið laus við það að þurfa að skilgreina mig eftir einhverri stærðartöflu).

Í dag er ég hrikalega ánægð með mig. Ég ætla bara að segja það upphátt. Svo allir heyri. Eða lesi. Og það eiga allir rétt á því að leyfa sér að líða þannig. Okkur á að líða vel í eigin skinni. Líða vel með okkur sjálf. Það er okkar að segja staðalímyndum stríð á hendur. Senda þeim löngutöngina. Gera þær úreltar. 

Við berjumst fyrir jafnrétti. Fjölbreytni. Öskrum ítrekað áfram allskonar. Við skulum ekki gleyma að öskra áfram allskonar líkamar. Fegurðin felst í fjölbreytni og í því að við séum ekki öll steypt í sama mót. Berum virðingu fyrir okkar eigin líkama. Sem og annarra.

Ég vildi óska þess að ég gæti komið öllum í skilning um það hversu mikið frelsi fylgir því að lifa í sátt við líkama sinn. Leyfa sér að þykja vænt um hann. Leyfa sér bara að vera til. Vera frjáls. Ég vildi óska þess að ég gæti hitt 18 ára gömlu Guðrúnu Veigu og komið henni í skilning um það.

Eins og þið sáuð í myndbandinu renna 8 krónur af öllum seldum Dove vörum til The Body Project sem vinnur að bættri sjálfsmynd ungra kvenna á Íslandi. En The Body Project er námskeið sem efla á gagnrýna hugsun ungra kvenna og auka sátt þeirra í eigin skinni, eins og ég hef svo oft áður minnst á. Hafið það á bak við eyrað næst þegar þið fleygið varningi frá Dove í innkaupakerrununa. Þið eruð að gera gagn. Mikið gagn.

Ps. námskeiðin eru á leiðinni í framhaldsskóla úti á landi. Það má klappa fyrir því!

Og þá skal ég hætta að tala í bili.

Ykkar einlæg,

Guðrún Veiga.


Jan 28, 2016

Brúðkaupsundirbúningur: annar hluti (af mörgum)


Jæja. Við ræddum síðast um brúðkaupsundirbúning í september. Einhverjum tveimur dögum eftir að við sambýlingarnir höfðum slegið því föstu að ganga í heilagt hjónaband. Og ég var byrjuð að æfa gönguna að altarinu á stofugólfinu. Búin að kaupa props fyrir myndatökur. Bóka ljósmyndara. Baka eina prufuköku. Og bresta fimm sinnum í grát yfir því að finna ekki nægilega skemmtilegt hashtag fyrir herlegheitin. Já, fyrir brúðkaup sem átti að eiga sér stað 10 mánuðum seinna. 

Allt í lagi. Ég játa. Ég fór heldur geyst af stað. Það má sakfella mig fyrir það.

Ég er auðvitað alltaf svolítið eins og spíttbátur. Eða þið vitið, hálf bensínlaus spíttbátur. Ég svíf yfirleitt seglum þöndum í miklu offorsi þegar eitthvað vekur hjá mér áhuga. Þó að spíttbátar séu almennt ekki með segl. Eða gangi fyrir bensíni. Whatever. 

Svo verð ég bensínlaus. Í flestum tilfellum þegar ég sé ennþá til bryggju. Missi áhugann. Verð afhuga.

 Einhverjum kann að ráma í þegar ég ætlaði að mála allan heiminn. Eða lita réttara sagt. Keypti litabækur eins og óð og uppvæg kona. Ritfangaverslanir urðu skyndilega eins og Vero Moda. Nýir litir voru mitt LSD. Ó, magnið sem ég keypti. Neyslan sem ég var í. 

Ég var farin að laumast í hraðbanka. Til þess að fjármagna litabækur og liti. Eðlilega. Ekki skyldi nú sambýlismaðurinn komast á snoðir um að ég væri að eyða tugum þúsunda í enn eitt áhugamálið. Enn eitt mjög svo skammvinnt áhugamálið. Einmitt. 

Neih, sá hefði stútað mér. Bara með byssu sko. Ekki barsmíðum. Hann er blessunarlega laus við að vera ofbeldishneigður. Þessi elska.

Í dag. Í dag já. Tilhugsunin um að setjast niður og fitla við litskrúðug fiðrildi er ansi hreint fjarri mér. Ég veit ekki einu sinni hvar þessar fokdýru litabækur eru. Ehm, litirnir. Allir bölvuðu litirnir. Það má mögulega skrapa þeim saman upp úr einhverjum dótakassanum hjá afkvæminu. 

Já, þannig fór um sjóferð þá. 

Og sömu leið fór sjóferðin sem ég lagði upp í þarna í september. Í átt að himneskri hjónavígslu. Og ríkmannlegum veisluhöldum. 

Æh. Bensínið kláraðist. Öskrandi áhuginn dvínaði. Minnisbókum, myndatökupropsi og kökuuppskriftum var fleygt út í horn.

Hefði ég leyft mígandi maníunni að blómstra í fullum skrúða allan þennan tíma væri ég vafalaust brúðgumalaus í dag. Munaðarlaus. Vinalaus. Og allslaus. Þannig að tímabundið áhugaleysi fyrir eigin brúðkaupi var vísast fyrir bestu.


Núna er friðurinn andskotans úti. Ég er fokking full af bensíni (og allskonar safa kæru Snapchat-fylgjendur). Til í tuskið. Klár í slaginn. Og mun ekki linna látunum fyrr en 14.ágúst næstkomandi. 

Ah já. Dagsetningu hjónavígslunnar himnesku hefur formlega verið breytt. Úr 9.júlí í 13.ágúst. Það hefur eitthvað með sjómennsku að gera. Eitthvað í sambandi við slipp. Eitthvað skiptikerfi um borð. Blablabla. Hver var að hlusta? Ekki ég. 


Fyrsti dagur í fluggír. Ég að kasta fram bröndurum til þess að hafa á boðskortinu. Sambýlismaðurinn að fara að grenja. Og óska þess að vera ofbeldishneigður. 

Þess má geta að við höfum afar ólíkar hugmyndir um bæði brúðkaup og veisluhöld. Hann vill gráta yfir inngöngu minni á meðan brúðarmarsinn dunar og tárvotir kirkjugestir rísa á fætur. Ég vil dansa að altarinu. Helst á meðan Gin and Juice með Snoop Dog glymur í græjum Eskifjarðarkirkju. 

Eins neitar hann að klæðast gulum Converse-skóm á stóra daginn. Það mál er ekki útkljáð. Frekar en svo mörg önnur. 

Rétt í þessu var hann að hrista hausinn alveg heiftarlega. Ég var nefnilega að panta talsvert magn af gulum makkarónum. Kannski nokkur hundruð. Það er nota bene það eina sem komið er á veisluborðið.

Nei. Samkomulag um hvað við eigum að hafa í matinn er svo langt frá því að vera í höfn. Hann vill helst þriggja rétta veislumáltíð. Með fínu víni. Dreypa svo á dýru koníaki og hakka í sig handgert súkkulaði. Og sennilega fá biskup Íslands til þess að fara með borðbæn. 

Ég vil ódýrt rauðvín. Og meira rauðvín. Fullt af rauðvíni. Og nammi.  

Stórkostlegir mánuðir framundan. 

Þið fáið að sjálfsögðu að vera með.

Þið finnið mig á bæði Snapchat & Instagram - gveiga85.

Heyrumst.

Jan 13, 2016

Kjúklingasalat fyrir Crossfitiðkendur


Eða fyrir fólk sem mætir bara ekkert í Crossfit. Og er búið að fá námskeiðið endurgreitt. Og skammast sín niður í tær. Eða þið vitið, skammast sín alveg smávegis. Skömmin er að vísu afar blönduð gífurlegum létti. Og ég skammast mín eiginlega fyrir það líka.

Jæja.

Ég er þó löglega afsökuð. Aldrei slíku vant. Sápuóperan Guðrún Veiga, bráðamóttakan og laskaði eggjastokkurinn hóf nefnilega göngu sína aftur í gær. Eftir gott hlé. Fyrsta sería var sýnd í ágúst á síðasta ári. Það má lesa meira um hana hérna. 

Í síðustu seríu bólgnaði vinstri eggjastokkur. Rofnaði eitthvað í kviðarholi. Og blæddi inn á eitthvað. Og ég fann til. Svo mikið til.

 Í nýjstu seríunni hefur hægri eggjastokkurinn hins vegar tekið við keflinu. Orðinn vel bólginn. Auðvitað. Og búinn að snúa upp á sig. Eðlilega. 

Fyrsti þáttur í nýrri seríu hófst óneitanlega með látum. Grunur um botlangabólgu. Guðrún Veiga, sem hræðist fátt meira en svæfingar, gubbaði við tíðindin. Með sinn alræmda þokka að vopni. Í móttökusal bráðamóttökunnar. Í poka. Og yfir skóna sína. Þjáðum gestum og gangandi til bæði unaðar og yndisauka. 

Þættinum lauk á sjúkrabílaralli í skjóli nætur. Upp á kvennadeild. Niður með buxurnar. Í sundur með lappirnar. Hægri eggjastokkur heilsaði. Bólginn, snúinn og almennt óhress. 

Ég fann til. Mikið til. Og ég finn ennþá til. Mikið til.

Og er ófær um að stunda Crossfit. Ófær segi ég. 

Þá er það frá. 

Þetta kjúklingasalat er ekki fyrir Crossfitiðkendur. Nei. Heldur fyrir þjáða konu. Sem elskar beikon. Og sweet chilli sósu. Og Bingókúlur. Þær eru samt ekki í salatinu. Þó þær séu góðar með beikoni. 

Þetta salat er hnossgæti. Og ég biðst afsökunar á því að hefja uppskrift að salati með umræðum um eggjastokkana í mér. 

Ókei, salat.


Crossfitsalat

1 bakki kjúklingalundir
1 poki spínat
stór rauðlaukur
vel vænt bréf af beikoni
1 box kirsuberjatómatar
1 lárpera
lítil flaska sweet chilli sósa
1 dós nýrnabaunir
örlítið kóríander (má sleppa)


Skellið spínati í skál. Skerið tómata og lárperu og fleygið ofan í.


Skiptið rauðlauknum í tvennt og saxið báða helminga smátt. Annar helmingur fer í skálina og hinn tekinn til hliðar.


Skerið kjúklinginn í litla bita. Kryddið með salti og pipar og brúnið á pönnu.


Takið kjúklinginn til hliðar. Þrífið pönnuna. Af því við erum ekki ógeð. Eða notið aðra pönnu. Sem ég bý ekki svo vel að eiga. 


Setjið smátt saxað beikon, hinn helminginn af rauðlauknum og nýrnabaunirnar á pönnuna. Skvettið svolítið duglega af sweet chilli sósunni yfir og steikið þangað til beikonið tekur lit.


Blandið kjúklingnum saman við. Og svolítilli slummu af sósu. Eða bara tæmið flöskuna. Það er helvíti fínt. 

Leyfið þessu aðeins að malla.


Yfir salatið með herlegheitin.

Blanda, blanda og blanda.



Þetta er ægilega gómsætt. Best samt með glás af kóríander. En það er algjört smekksatriði. Ég elska kóríander. Gæti vel hugsað mér að skipta spínatinu alfarið út fyrir kóríander. 

Svona ef út í það er farið.

Jæja. Ég ætla að halda áfram að vera rúmliggjandi.

Þið finnið mig bæði á Snapchat og Instagram - gveiga85.

Heyrumst.

Jan 7, 2016

Fimm hlutir í fésið á fimmtudegi


Ég mála mig á hverjum degi. Fyrir sjálfa mig. Af því mér finnst ég sæt vel meikuð. Með blússandi bleikar kinnar. Glossklístraðar varir. Og margar umferðir af maskara. 

Ég er samt ekki sæt á hverjum degi sko. Nei. Stundum er ég að flýta mér. Og þá er eins og Stevie Wonder hafi málað mig. 

Þessi málningarvinna tekur þó að öllum líkindum enda á næsta þriðjudag. Þá fer ég í fyrsta Crossfit-tímann minn. Og verð hugsanlega rúmliggjandi á Reykjalundi þangað til ég fermi afkvæmið. Eftir fimm ár. 

Ég hef ekki farið í ræktina síðan í janúar. Á síðasta ári. Og mig langar talsvert meira að remba einu stykki barni út um veislusalinn á mér en að mæta í þennan tíma. Eða bara sjö börnum. Í einu. Fá alla sjö hausana út um leggöngin um leið. Og verða svo ólétt aftur. 10 dögum seinna. Af öðrum sjöburum. 

Jú, þið lásið rétt. Ég kallaði leggöngin á mér veislusal.

Ehm, af hverju er ég að fara í Crossfit?

Ég andskotans veit það ekki. Af því ég er dæmalaust meðvirk. Og á ömurlega vinkonu. Eða fyrrverandi vinkonu. Svo það sé á hreinu.

Jæja. Burtséð frá því að vofeigilegur dauðdagi minn sé yfirvofandi þá eru fáeinar snyrtivörur sem mig langar að ræða. Og taka saman fyrir líksnyrtirinn. Svona ef næsta vika fer á versta veg. 

Þessar vörur hafa verið í notkun lengi. Og ég elska þær. Allar með tölu.



Þessi gerviaugnhár sko. Ravishing frá Social Eyes. Ég elska þau. Henta vel fyrir konu eins og mig - sem er með fínhreyfingar á við vanþroska kálf. Augnhárin eru stíf þannig að ásetningin er talsvert auðveldari en ella.

Helst vildi ég skarta þeim á hverjum degi. En það gengur ekki að ég sé alltaf sætasta stelpan á ballinu. Það þarf að leyfa öðrum blómum í beðinu að blómstra líka. 

Social Eyes fást á haustfjord.is



Kinnalitur frá Max Factor. Ég man ekki alveg hvenær ég keypti hann fyrst. Þetta er að minnsta kosti fjórða boxið. En það er kannski ekki að marka. Ég fer alltaf svolítið geyst í kinnalitinn. Eins og rauðvínið.

Ódýr og óneitanlega lekker.

Hann fæst víða. Að ég held. Ég hef yfirleitt fleygt honum í körfu hjá Heimkaupum.


Númer fimm. Lovely pink.


Ultra Repair Cream frá First Aid Beauty. Það eina sem virkar þessa dagana á andlitið á mér. Sem er yfirleitt eins og þurrkuð apríkósa. Sem búið er að stíga á. Fimm sinnum.

Ég er með krónískan húðþurrk. Sem fátt bítur á. Og ég hef sko prófað hvað flest krem undir sólinni. Ég vann lengi í apóteki. Þar var starfsmannaafsláttur og ég fékk aldrei krónu útborgað. Átti hins vegar rosalega mikið af kremum. Og ilmvötnum. Og augnblýöntum. En það er önnur saga.

Húðin á mér hefur sjaldan verið eins sallafín og núna. 

Ultra Repair Cream fæst á fotia.is


Pása. Ég var að taka myndir utandyra í dagsbirtunni. Þarna var ég búin að taka nokkrar myndir. Og mér var orðið svo kalt. Og illt í bakinu. Af því ég þurfti að beygja mig svo mikið til þess að mynda svona smáhluti.

Já. Ég hlakka rosalega til að fara í Crossfit. 



BB krem frá Garnier. Sem ég keypti í Bónus. Glettilega gott krem. Eina kremið sem gerir mig ekki appelsínugula. Eða bólótta. Eða almennt ljóta. 



Wake Me Up hyljari frá Rimmel. Keyptur í Hagkaupum í haust. Ég er ægilega skotin í honum þessum. Aðallega vegna þess að hann festist ekki í mínum sífjölgandi augnhrukkum. Og þekur vel. Sem er gott. Sérstaklega fyrir fólk með gapandi fjólubláa gíga undir augunum. 

Jæja. Ég er að fara í 10-11. Að kaupa sódavatn. Ekki af því ég er einhver snarheilbrigður vatnsdrekkandi andskoti. Nei. Ég ætla að hella rommi í það. Og hrásykri. Jafnvel myntulaufum ef vel liggur á mér.

Þið finnið mig á Snapchat & Instagram - gveiga85.

Heyrumst.
(Kannski)